Karellen

Leikskólinn Akrar var formlega opnaður 12. janúar 2012. Á leikskólanum eru fjórar deildir, Mói, Lyng, Engi og Mýri.

Á Móa og Lyngi eru yngri börnin og á Engi og Mýri eru eldri börnin. Á hverju vori er sá barnafjöldi sem hættir skoðaður og eru elstu börnin af Lyngi og Móa flutt yfir á eldri deildirnar.

Virkni og vellíðan eru grunngildi leikskólans. Vellíðan barna er höfð í fyrirrúmi og starfið skipulagt út frá þátttöku og virkni barnanna í öllu starfinu. Sköpun og læsi koma til með að skipa stóran sess í starfinu. Börnin læra af eigin reynslu með því að skynja námið á eigin hátt.
Á ökrum vinnum við eftir Uppeldi til ábyrgðar (uppbyggingastefnan). Uppeldi til ábyrgðar snýst að mestu um samskipti, ef samskipti eru góð og gefandi þá má byggja á þeim árangursríkt nám. Þetta er aðferð við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum. Markmiðið er að þjálfa börn í að vera þau sem þau vilja vera út frá eigin sannfæringu en ekki bara að geðjast öðrum.
Mikilvægt er að efla sköpunarkraft, athafnagleði og forvitni barnsins, vekja áhuga þess og hvetja til gagnrýninnar hugsunar. Skapa þarf barninu uppeldisumhverfi sem örvar þroska þess á virkan hátt með eðlilegum og hæfilega erfiðum viðfangsefnum og möguleikum til sjálfstæðra rannsókna og athugana. Skapandi starf á að koma fram í öllum þáttum leikskólastarfsins, þar með talið myndsköpun, tónlist, leikræn tjáning og dans.
© 2016 - 2024 Karellen