Þátttökuaðlögun
Barnið þarf að fá góðan tíma til að kynnast leikskólanum og starfsfólki því góð aðlögun hefur mikla þýðingu varðandi áframhaldandi dvöl barnsins. Á þessu tímabili kynnast barn og foreldrar starfsfólki leikskólans og starfsemi hans. Þegar barn byrjar í leikskóla er nauðsynlegt að hafa í huga þær breytingar sem það hefur í för með sér fyrir barnið. Barnið þarf að aðlagast nýju umhverfi, nýju fólki, læra að vera í hóp og fara eftir reglum og fleira.
Leikskólinn er samfélag þar sem börn og fullorðnir byggja upp þekkingu saman og staður námstækifæra. Barnið tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Í þeim anda er hin nýja aðlögun sem nefnd er þátttökuaðlögun. Hún byggist á því að ekki er verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur er það að læra að vera í nýjum aðstæðum.
Þátttökuaðlögun byggir m.a. á þeirri trú að foreldrar yfirfæri eigin öryggiskennd og forvitni í þessum nýju aðstæðum á börnin sín. Með því að foreldrar séu þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það nám sem fram fer i leikskólanum. Þeir kynnast kennurunum, öðrum börnum og foreldrum. Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli aðlögunar er Öruggir foreldrar = örugg börn
Þátttökuaðlögun byggir á að foreldrar eru með börnum sínum í þrjá daga :
- Dagur 1 frá kl: 9.30 -12.30 (hádegismatur)
- Dagur 2 frá kl: 8.30 -14.00 (morgunmatur, hádegismatur og hvíld)
- Dagur 3 frá kl: 8.00 -15.00 (morgunmatur, hádegismatur, hvíld og síðdegishressing)
Foreldrar eru inni á deild með börnum sínum allan tímann ( nema þegar þau sofa). Foreldrar sinna börnum sínum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, leika með þeim og eru til staðar. Kennararnir eru virkir þátttakendur í aðlöguninni, þeir skipuleggja daginn og útdeila verkefnum. Vinsamlegast takmarkið símanotkun á meðan á aðlögun stendur.
Á fjórða degi koma börnin á sínum tíma um morguninn og kveðja foreldrana fljótlega. Einstaka börn þurfa að hafa foreldra sína með sér í fjóra daga en reynslan sýnir að þau eru fá.
Mikilvægt er að minna á trúnað og þagnarskyldu þar sem ljóst er að með lengri viðveru tímabundið fá foreldrar óbeinar upplýsingar um önnur börn.
Virðingarfyllst,
Sigrún Sigurðardóttir
Leikskólastjóri á Ökrum